Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 170. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 174  —  170. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994,
með síðari breytingum.

Frá velferðarnefnd.


1. gr.

    Síðari málsliður 13. gr. laganna, sbr. lög nr. 132/2009, orðast svo: Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að enn um sinn verði frestað hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja. Gildistökunni hefur verið frestað fjórum sinnum, fyrst með lögum nr. 120/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, og þá til 1. janúar 2009. Með lögum nr. 146/2008 var gildistöku ákvæðisins að nýju frestað til 1. apríl 2009 og aftur með lögum nr. 28/2009 til 1. janúar 2010. Nú síðast var gildistökunni frestað með lögum nr. 132/2009 og þá til 1. janúar 2012. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 132/2009 kemur fram að horft hafi verið til þess að gildistaka banns við afslætti á lyfjaverði í smásölu skuli haldast í hendur við gildistöku nýrra laga um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í lyfjakostnaði einstaklinga.
    Velferðarráðherra lagði í maí sl. fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði) (þskj. 1388, 784. mál, 139. löggjafarþing). Frumvarpið náði ekki fram að ganga en það er á þingmálaskrá ráðherra fyrir yfirstandandi þing og stefnt er að framlagningu þess á haustþingi. Nái það fram að ganga og verði að lögum fyrir 1. janúar 2012 er stefnt að því að ákvæði um nýtt fyrirkomulag í greiðslukostnaði ríkisins í lyfjakostnaði taki ekki gildi fyrr en a.m.k. sex mánuðum eftir gildistöku laganna.
    Nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja hefur grundvallarbreytingar í för með sér hvað varðar greiðsluþátttöku sjúklinga og líklega einnig á það afsláttar fyrirkomulag sem verið hefur í apótekum. Því þykir rétt að fresta banni við afsláttum í apótekum þar til séð verður hvernig þær breytingar koma út og er því lagt til að frestað verði gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994 til 1. janúar 2015.